Babbidí-bú

Babbidí-bú, lagið um galdranornina Grímhildi hefur heillað útskriftarhópinn á Aðalþingi upp á síðkastið, enda er það bráðskemmtilegt og mjög fyndið. Börnin hafa æft það vel fyrir útskriftina sína, auk þess sem þau hafa farið í alls konar galdraleiki og annað galdrafjör, eins og sjá má á myndskeiðinu hér að neðan. Lagið er eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur og kom út á samnefndum hljómdiski árið 1994.

Babbidí-bú

Babbidí-bú
Ég er hún Grímhildur galdrakerling.
Babbidí-bæ!
Nú verður aldeilis húllum hæ.

Bab-bi-dí-bú!
Ég kann að galdra alveg heilan helling
Babbidí-bæ!
Af brellum aldrei nóg ég fæ.

Bab-bi-dí bú-bí-dú!
Ég breyti fínni frú
í feita og sællega mjólkurkú.
Og babbidí-bá!
Já, hvílík sjón að sjá:
þú ert með tíu hvíta
    kanínubjálfa kollinum á.

Babbideí-bú!
Hér er hún Grímsa í galdrasveiflu.
Babbidí-bí!
Nú verður aldeilis hopp og hí.

Bab-bid-dí-bú!
Með einu priki og pínu geiflu
Babbidí-bí!
Ég öllum hlutum á hausinn sný.

Bab-bi-dí-bú-bí-dú!
og kannski kemur þú
á kústinum með mér til Húbba-lú.
Og Babbidí-bá!
Við fljúgum beint á ská.
Hvað ertu að gera með þennan
    rabarbara rassinum á?

Lag og texti: Olga Guðrún Árnadóttir
Lagið á Spotify
Lagið með gítargripum (PDF)

Myndskeið

Babbidí-bú er dæmi um lag með heilum söguheimi sem endurspeglar og örvar ímyndunaraflið. Það fellur því sérstaklega vel að því að börnin leiki lagið og geri það áþreifanlegt með ýmsum hætti. Í myndskeiðinu má sjá mörg dæmi um þetta: hvernig þau fljúga á kústskafti, gera mjólkurkú, snúa öllum hlutum á haus, gretta sig, sveifla sprota og ýmislegt fleira.

Að vinna með textann

Þegar við byrjuðum að æfa kom í ljós að börnin áttu stundum til að víxla erindum eða línum, þannig að ég rissaði upp "myndasögu" til að hjálpa þeim að muna í hvaða röð hlutirnir gerast í laginu.

Börnin bjuggu til mjólkurkú úr kubbum og gerðu stóra sameiginlega mynd af tíu kanínubjálfum. Þau fóru líka í búningaleik og flugu um á risastóru priki sem einn strákurinn hafði fundið í göngutúr.

Kanínubjálfar á hausnum

Mjólkurkýrin verður til

Það er líka áhugavert að ræða við börnin hvort Grímhildur sé að stríða einhverjum eða sé kannski bara ekki sérlega góð í að galdra og geri þess vegna skringileg mistök? Í svoleiðis samræðum getur maður kannski líka komist að þeirri niðurstöðu að Grímhildur sé bara ósköp venjulegt barn sem er að þykjast vera norn og gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn...

Gaman er að segja frá því að ég hafði ekki sjálf fattað hvað lægi á bak við lokaorðin í laginu: "Hvað ertu að gera með þennan rabarbara rassinum á?" fyrr en maðurinn minn benti mér á að það hlyti að vera einhver fantasíulaus fullorðinn sem segði þetta við barn sem er augljóslega að fljúga um á kústskafti.

Svipmyndir úr galdraleik

Síðast breytt
Síða stofnuð