Babú babú!
Brunabíllinn flautar.
Hvert er hann að fara?
Vatn á eld að sprauta.
tss, tsss, tss, tss!
Gerir alla blauta.
Mjá mjá mjá mjá!
Mjálmar gráa kisa.
Hvert er hún að fara?
Út í skóg að ganga.
Uss, uss, uss, uss!
Skógarþröst að fanga.
Bíbí bíbí!
Skógarþröstur syngur.
Hvert er hann að fara?
Burt frá kisu flýgur.
Víí, víí, víí, víí!
um loftin blá hann smýgur.
Sagan
Einu sinni var grá og falleg kisa sem lá og svaf í gluggakistunni heima hjá sér. Allt í einu heyrði hún rosalegan hávaða. Það kom stór rauður brunabíll með blikkandi ljós og sírenu sem hljómaði svona: „Babú, babú“. Hvar var eldurinn? Kisan sá nú að það hafði kviknað í húsinu hinum megin við götuna. Slökkviliðsmenn hoppuðu út úr bílnum og byrjuðu að sprauta vatni á húsið til að slökkva eldinn. Allir sem stóðu of nálægt urðu blautir af vatninu.
Kisan varð pirruð yfir öllum hávaðanum og vildi heldur ekki eiga á hættu að blotna, svo að hún ákvað að fara út í skóg. Hún var svöng og datt í hug að hún gæti kannski fundið sér eitthvað til að borða. Kannski gæti hún veitt fugl? Hún sá skógarþröst sem sat á grein. Hún læddist nær, mjög hljóðlega. Svo stökk hún!
En þrösturinn hafði tekið eftir henni og flaug bara í burtu. Hann blakaði vængjunum sínum og þaut af stað gegnum loftið. Kisan fékk ekkert að borða í þetta sinn.
Einnig er hægt að finna dót sem passar við lagið. Brunabíl og hús ætti að vera auðvelt að finna. Hægt er að gera loga úr silkipappír og nota bláan borða til að sýna vatnið sem sprautast. Kisan getur verið handbrúða, sérstaklega ef maður vill láta hana vera miðpunkt sögunnar, en annars er líka hægt að hafa dótakisu. Notið eitthvað til að tákna tré (t.d. plöntu, grein eða álíka) og einhvers konar fugl. Ef maður er ekki með skógarþröst má líka nota annan fugl eða jafnvel mynd.
Hreyfing og leikur
Slökkviliðsleikur
Börnunum er skipt í tvo hópa. Annar hópurinn leikur eldinn og hinn slökkviliðið.
Börnin í slökkviliðshópnum fá rör (t.d. eldhúsrúllurör) með bláum borða eða slæðu í sem hreyfist þegar þau sveifla rörinu. Þau eru núna slökkviliðið og þegar það er hringt í 112 setja þau upp hjálminn sinn (í þykjustunni) og bruna af stað, „Babú, babú!“ Þau finna eldinn og sprauta vatni á hann.
Börnin í eldhópnum eru með rauðar eða gular slæður sem þau sveifla til til að tákna að það hafi kviknað í húsinu. Þau standa e.t.v. húla-hring eða álíka til að afmarka "húsið" þeirra. Þegar það er sprautað vatni á eldinn grúfa þau niður og bíða þangað til slökkviliðið er farið áður en logarnir fara aftur á kreik.
Það er t.d. hægt að spila einhverja góða, dramatíska, klassíska tónlist undir.
Önnur leið er að öll börnin séu slökkviliðsmenn og maður hafi dreift "eldi" víðs vegar um stofuna sem þau eiga að finna og slökkva.
Kisa á fuglaveiðum
Kennarinn leikur kisu sem læðist og er á veiðum. Börnin eru fuglar og sitja dreift á gólfinu. Þeir hreyfa sig ekki fyrr en kennarinn segir „mjá!“ - þá stökkva þeir upp, blaka vængjunum og fljúga um.
Samþætting
Bækur
Í bókaröðinni Skemmtilegu smábarnabækurnar er bók sem heitir Buna brunabíll.
Bókin Kisi fugl fjallar á skemmtilegan hátt um kött sem heldur að hann sé fugl.
Lög
Um ketti eru til ýmis lög, t.d. Kannast þú við köttinn minn, Komdu kisa mín, Litla kisa mín og fleiri.
Annað
Hægt er að tala um hvað slökkviliðið gerir og t.d. skoða myndir og myndskeið af slökkvistarfi.
Ræðið um brunabjölluna í leikskólanum og hvað á að gera ef hún fer í gang.