Ef væri ég söngvari

Stapaskóli (leikskólastig)

Texti

Ef væri ég söngvari
syngi ég ljóð
:; um sólina, vorið og land mitt og þjóð;:

En mömmu ég gæfi
mín ljúfustu ljóð
:; Hún leiðir mig, verndar og er mér svo góð;:

Ef gæti ég farið
sem fiskur um haf
:; ég fengi mér dýrustu perlur og raf;:

Og rafið ég geymdi
og gæfi ekki braut
:; en gerði´enni mömmu úr perlunum skraut;:

Ef kynni´ég að sauma
ég keypti mér lín
:; og klæði ég gerði mér snotur og fín;:

En mömmu úr silki
ég saumaði margt
:; úr silfri og gulli, hið dýrasta skart;:

Saga

Einu sinni var strákur sem hét Pétur. Hann átti heima með mömmu sinni í litlu húsi, í litlum bæ. Einn dag er Pétur á gangi í skóginum fyrir aftan húsið sitt þegar hann rekst á stein. Steinninn var ekkert eðlilegur að útliti, heldur var hann skærfjólublár að lit og leit út fyrir að ljóma. Hann tók steininn upp og setti hann í vasann áður en hann hélt heim á leið. Pétur lagði steininn á skrifborðið í herberginu sínu og hélt áfram með daginn sinn. Þessa nótt svaf Pétur vært og rótt. Allt í einu hrökk hann upp við rödd. Hvaðan kom röddin? Honum fannst hún koma frá steininum. Röddin sagði “taktu steininn upp og hugsaðu um það sem þig langar að gera. Steinninn gerir þér kleift að lifa þína bestu drauma.” Var Pétri að dreyma? Hann var örlítið hræddur en forvitinn. Hann tók steininn upp og lokaði augunum. Hann hugsaði: “ég vildi að ég væri söngvari sem væri frægur og allir á landinu kynnu ljóðin mín”. Og viti menn! Þessa nótt upplifði Pétur hvernig það væri að vera frægur söngvari og allir dýrkuðu hann og dáðu. Hann söng lög um mömmu sína sem var alltaf svo góð við hann og verndaði hann allt hans líf. Hann söng líka lög um það sem gerði hann hamingjusaman eins og sólina, vorið og fólkið í landinu.

Þegar Pétur vaknaði morguninn eftir var allt eins og það átti að vera. Hann var örlítið vonsvikinn. Það var gaman að vera frægur söngvari. Næstu nótt ákvað Pétur að taka steininn aftur upp og óskaði sér í þetta skiptið að hann væri fiskur sem synti hratt um í hafinu. Mamma hans var líka fiskur. Þau syntu og syntu og kynntust fullt af sjávardýrum. Þau fundu fjársjóðskistu fulla af gulli og perlum og Pétur óskaði sér að hann gæti tekið það með sér heim eftir nóttina sem fiskur.

Daginn eftir vaknaði Pétur og allt var eins og það átti að vera. Hann var vonsvikinn því enginn fjársjóður var í herberginu hans eftir nóttina. Næstu nótt tók Pétur steininn upp og óskaði sér að hann væri frægur klæðskeri sem bjó til föt fyrir fínasta fólkið í landinu. Hann var líka klár gullsmiður og smíðaði fallegt skart. Hann gerði fallegt perluhálsmen fyrir mömmu sína og saumaði falleg föt á sig. Hann óskaði þess að eiga fötin og skartið enn þegar nóttin væri búin.

Þegar Pétur vaknaði morguninn eftir var steininn horfinn. En í stað steinsins var miði sem á stóð: “Þrjár óskir eru nú uppfylltar og þú hefur fengið að prófa ýmislegt. Steinninn bíður nú annarra til að upplifa sömu töfra”. Pétur var farinn að snökta yfir því að steinninn væri horfinn en þá er honum litið til hliðar. Þarna var eitthver kistill á gólfinu sem hann kannaðist ekki við. Hann opnaði kistilinn og þar ofan í voru ljóðin sem hann samdi þegar hann var söngvari, perluskart fyrir mömmu og fötin sem hann saumaði. Pétur hoppaði hæð sína af gleði og gleymdi því aldrei þegar hann fann töfrastein sem uppfyllti drauma hans.

Orðaforði og hugtök

  • Þjóð = hópur fólks sem myndar eina heild, á sér að jafnaði sameiginlegt tungumál, menningu og sögulega arfleifð og býr oftast á samfelldu landsvæði
  • Vernda = passa upp á að ekkert illt hendi
  • Raf = steingerð trjákvoða, oft í brúnum eða gulleitu mmolum sem eru slípaðir og notaðir sem skart / gull
  • Lín = tau, léreft
  • Snotur = nokkuð fallegur
  • Silki = fíngert efni unnið úr þráðum sem silkiormur spinnur
  • Skart = skrauthlutir, skraut

Sjónrænt

Myndrenningur með myndum sem sjá má í þessu pdf-skjali

Hreyfing og leikur

Ein ég sit og sauma - lag og leikur

Samþætting

Lög

  • Fiskalagið
  • Ísland er land þitt
  • Ein ég sit og sauma

Ljóð

Gulli og perlum að safna sér sumir endalaust reyna.
Vita ekki að vináttan er verðmætust eðalsteina.
Gull á ég ekki að gefa þér og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan er verðmætust eðalsteina.

Sjónvarpsefni

Teiknimyndaröðin „Ég er fiskur“ á RÚV.

Bækur

Ef væri ég söngvari (söngvasafn).

Síðast breytt
Síða stofnuð