Fyrr var oft í koti kátt,
krakkar léku saman,
þar var löngum hlegið hátt,
hent að mörgu gaman.
Úti\' um stéttar urðu þar
einatt skrítnar sögur,
þegar saman safnast var
sumarkvöldin fögur.
Eins við brugðum okkur þá
oft á milli bæja
til að kankast eitthvað á
eða til að hlæja.
Margt eitt kvöld og margan dag
máttum við í næði
æfa saman eitthvert lag
eða syngja kvæði.
Bænum mínum heima hjá
Hlíðar brekkum undir
er svo margt að minnast á,
margar glaðar stundir.
Því vill hvarfla hugurinn,
heillavinir góðir,
heim í gamla hópinn minn,
heim á fornar slóðir.
Lag: Friðrik Bjarnason
Texti: Þorsteinn Erlingsson
Sagan
Einu sinni var lítill strákur sem átti enga mömmu og engan pabba. En hann var svo heppinn að eiga ömmu og afa. Amma hans hét Helga og afi hans hét Þorsteinn. Þau ákváðu að taka litla strákinn til sín í fóstur og skírðu hann í höfuðið á afa sínum Þorsteini. Þorsteinn litli ólst upp við það að amma Helga og afi Þorsteinn urðu einfaldlega mamma Helga og pabbi Þorsteinn. Þau bjuggu öll saman á sveitabæ sem hét Hlíðarendakot. Hlíðarendakot var stór bóndabær og þar bjó fullt af fólki sem hjálpaði Helgu og Þorsteini að hugsa vel um bóndabæinn og dýrin sem bjuggu þar.
Í Hlíðarendakoti var alltaf gaman og mikil gleði. Þar voru líka fleiri börn sem Þorsteinn gat leikið sér við. Þau léku sér mest úti, vegna þess að í gamla daga þegar Þorsteinn var lítill strákur, þá léku krakkar sér mjög mikið úti allan liðlangan daginn. Krakkarnir léku í alls konar leikjum og á kvöldin þá söfnuðust allir saman, bæði fullorðnir og börn, borðuðu saman og sögðu sögur af því hvernig dagurinn þeirra var.
Í sveitinni voru fleiri bóndabæir og oft þurfti fullorðna fólkið og krakkarnir að fara á milli bæja; stundum til þess að fá eitthvað lánað, stundum til þess að sækja eitthvað, stundum fóru þau með mat eða dýr á milli bæja, stundum fóru þau í veislu og stundum fór bara Þorsteinn að leika við aðra krakka á næstu bæjum. Þorsteini fannst mjög gaman að fara í heimsókn á aðra bæi eða fá gesti til sín vegna þess að þá fóru krakkarnir oft að grínast (kankast) eitthvað í fullorðna fólkinu og stríða þeim eða æfa sig í að syngja saman eins og kór. Krakkarnir æfðu sig í að syngja saman lög og héldu svo sýningar og tónleika fyrir fullorðna fólkið. Allan daginn og allt kvöldið voru krakkarnir að gera eitthvað skemmtilegt. En stundum var líka gott að vera bara einn með sjálfum sér og slaka á.
Þegar Þorsteinn var orðinn fullorðinn maður þá gerðist hann skáld, það er höfundur sem yrkir ljóð, oft kallað ljóðskáld. Eitt af vinsælustu ljóðunum hans er einmitt lagið Í Hlíðarendakoti. Hann skrifaði textann og seinna samdi maður sem heitir Friðrik Bjarnason lag við ljóðið svo að fullorðnir og börn gætu sungið ljóðið hans Þorsteins.
Þorsteinn samdi ljóðið til þess að minnast gamla bóndabæjarins síns, sem var í hlíð undir brekku. Hann átti svo margar góðar stundir þar sem barn sem gerðu hann glaðan. Honum varð oft hugsað til gamla bæjarins, til allra barnanna, vinanna sem hann átti þar og lék sér við. Helst vildi hann geta farið þangað aftur, heim í gamla hópinn sinn og heim á fornar slóðir.
Orðaforði og hugtök
Kot – bær
Hent að mörgu gaman
Stétt
Einatt
Bregða sér á milli bæja
Kankast á
Næði
Hugurinn hvarflar
Heillavinir
Fornar slóðir
Myndrænt/sjónrænt
Sjá þessar myndir (PDF) sem notaðar voru til þess að útskýra textann og hjálpa börnunum að leggja orðaforðann og textann á minnið.
Hreyfing og leikur
Ein hugmynd er að gera leikþátt.
Búa til bóndabæ.
Fara í útileiki.
Spjalla um daginn og veginn.
Hafa næðisstund og lesa bók.
Samþætting
Skoða myndir af torfbæjum. Heimsækja byggðasafn og fara inn í torfbæ og sjá gamla muni.
Bókin Maxímús Músíkús kætist í kór lesin og tenging í að syngja saman sem kór og æfa saman lag og kvæði.
Tónlist
Spila undir á hljóðfæri.
Syngja lög og kvæði saman.
Annað
Lagið sungið á söngstund fyrir önnur börn með undirspili.