Nú er Gunna á nýju skónum

Frá Hjallatúni

Textinn

Nú er Gunna á nýju skónum,
nú eru´að koma jól.
Siggi er á síðum buxum,
Solla´á bláum kjól.
:/: Solla´á bláum kjól :/:
Siggi er á síðum buxum,
Solla´á bláum kjól.

Mamma er enn í eldhúsinu
eitthvað að fást við mat.
Indæla steik hún er að færa
upp á stærðar fat.

Pabbi enn í ógnarbasli
á með flibbann sinn.
„Fljótur, Siggi, finndu snöggvast
flibbahnappinn minn“.

Kisu er eitthvað órótt líka,
út fer brokkandi.
Ilmurinn úr eldhúsinu
er svo lokkandi.

Á borðinu ótal bögglar standa,
- bannað að gægjast í.
Kæru vinir, óskup erfitt
er að hlýða því.

Jólatréð í stofu stendur,
stjörnuna glampar á.
Kertin standa á grænum greinum,
gul og rauð og blá.

Sagan

Jólaundirbúningurinn er í fullum gangi. Börnin hafa verið að bíða spennt eftir aðfangadagskvöldi. Þau eru komin í sparifötin sín en því miður byrjar veislan ekki strax. Gunna fékk nýja skó og má nú loksins vera í þeim, hún er mjög spennt. Siggi er á fallegum síðum buxum og Solla á bláum kjól.

Mamma er á fullu inni í eldhúsinu að undirbúa jólamatinn. Hún er búin að steikja kjötið, tekur steikina úr ofninum og setur hana á stórt fat.

Pabbi er að klæða sig í fínu fötin sín en á erfitt með að hneppa kraganum á skyrtunni sinni. Maturinn er að verða tilbúinn þannig að hann er að drífa sig, en hann flýtir sér svo mikið að hann missir flibbahnappinn úr höndunum. Pabbi sér flibbahnappinn ekki strax á gólfinu og kallar á Sigga til að koma að hjálpa honum að finna hann.

Kisan skilur ekki neitt í þessum æsingi og lætur sig hverfa eins fljótt og hún getur.

Mjög góður ilmur kemur úr eldhúsinu, núna er ekki langt í mat.

Á borði í stofunni eru jólapakkar. Það er freistandi að kíkja í þá og finna út hvað er í þeim en börnin vita að þau eiga að bíða, fyrst á að borða saman jólamat.

Jólatréð er í stofunni og ofan á því er glansandi stjarna. Jólatréð er fallega skreytt með gulum, rauðum og bláum kertum.

Núna er allt tilbúið fyrir dásamlegt aðfangadagskvöld!

Orðaforði og hugtök

  • spariföt (úr sögunni)
  • steik
  • flibbi / flibbahnappur
  • ógnarbasli / eiga í basli með
  • brokkandi / að brokka
  • lokkandi
  • bögglar

Okkur finnst gaman hvað lagið er raunverulegt, það fjallar um hluti sem flest börn eiga að þekkja eða skilja. Lagið veitir tækifæri til að ræða ýmislegt í tengslum við jólin og veisluhöld heima hjá fólki. Hægt er að tengja við reynslu barna og hvetja til umræðu: fáið þið ný föt um jólin, verðið þið í sparifötum á aðfangadagskvöld? Hver eldar jólamatinn hjá ykkur, er það mamma/pabbi/amma/afi...? Hvað er í matinn, er steikt kjöt hjá öllum eða eitthvað annað? ...

Sjónrænt

Við prentuðum myndir til að setja á loðtöflu fyrir hvert erindi.

Hér er PDF-skjal með myndunum.

Hreyfing og leikir

Önnur hugmynd er að finna búninga (hvít skyrta, sparifötin, svunta) þannig að nokkur börn geta verið pabbinn, mamman og börnin úr laginu á meðan við syngjum og/eða þau geta farið í hlutverkaleik eftir að við sungum og ræddum lagið.

Síðast breytt
Síða stofnuð