Við kveikjum einu kerti á

Heiðarsel

Texti

Við kveikjum einu kerti á,
Hans koma nálgast fer,
sem fyrstu jól í jötu lá
og jesúbarnið er.

Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans.
Því Drottin sjálfur soninn þá
mun senda´ í líking manns.

Við kveikjum þremur kertum á
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólum kysi sér.

Við kveikjum fjórum kertum á;
brátt kemur gesturinn
og allar þjóðir þurfa að sjá
að það er frelsarinn.

Lag: Emmy Köhler
Texti: Lilja S. Kristjánsdóttir

Sagan

Fyrsta sunnudaginn í aðventu kveikjum við á einu kerti á aðventukransinum. Kertin eru fjögur og þau tákna fjóra sunnudaga fram að jólum. Þegar við kveikjum á fyrsta kertinu þá minnumst við þess að brátt nálgast jólin sem margir tengja við Jesús. Hann er litla barnið sem lá í jötunni yfir jólin. Á þeim tíma var sagt öllum frá því sem vildu heyra að það myndi fæðast alveg einstakt barn í heiminn. En enginn vissi hvenær eða hvar.

Annan sunnudaginn í aðventu kveikjum við tveimur kertum á. Þegar við kveikjum á kerti númer tvö þá minnumst við þess að litla barnið, Jesú, sem kom í heiminn á jólunum var sendur frá mætti æðri en okkur sjálfum, sem margir kalla Guð. Á þeim tíma voru margir að bíða eftir komu Hans, Jesús, því jesúbarnið átti að hafa sérstakan kraft, mátt, sem aðrir menn höfðu ekki.

Þriðja sunnudag í aðventu kveikjum við á þremur kertum. Þá minnumst við þess að þrátt fyrir að Guð sendi okkur strákinn sinn Jesús, sem átti að vera eins og konungur í ríki sínu, þá vildi Jesús ekkert annað en vera mannlegur, sofa í ósköp venjulegu rúmi hjá mömmu sinni og pabba.

Fjórða sunnudaginn í aðventu kveikjum við á fjórða kertinu. Einmitt þá vitum við að jólin eru á næsta leyti og við þurfum ekki að bíða mikið lengur. Þau koma fyrir fimmta sunnudaginn. Á þeim tíma hugsuðu margir um allan heim að nú myndi fæðast barn, sem yrði konungur með svo mikinn kraft að hann gæti sameinað allan heiminn í eitt skipti fyrir öll og allir þeir sem myndu trúa á hann færi að líða betur. Jesúbarnið yrði frelsari sem myndi frelsa fólk frá því að líða illa.

Orðaforði og hugtök

  • Hans koma nálgast fer
  • jata
  • jesúbarnið
  • Komu bíðum Hans
  • Drottinn -- Guð
  • æðri máttur - kraftur
  • Senda í líki/líkingu manns
  • konungur
  • strá
  • kjósa sér
  • Brátt kemur gesturinn
  • þjóðir
  • frelsari -- að frelsa
  • Að líða vel -- gleði
  • Að líða illa -- leiði, depurð

Myndrænt/sjónrænt

Hægt er að búa til myndarenninga með myndum sem sýna hvað textinn táknar.

Auðvelt er að grípa dúkku og dúkkurúm úr leikstofunni og leggja dúkkuna í rúmið. Hafa kindur, kýr og asna úr dýrakassanum við höndina. Nota þurrkuð strá sem safnað var saman sumrinu á undan og leggja í dúkkurúmið. Útbúa aðventukrans og nota kerti sem ganga fyrir batteríum. Það er alltaf jafn gaman og þreytist aldrei að leyfa börnunum að setja kodda eða bangsa innanklæða og þykjast ganga með barn. Þá er alltaf hlegið jafn mikið. Hafa búningakistuna við höndina, setja á sig kórónu og skikkju, eða búa til kórónu og binda teppi úr hvíldinni um hálsinn. Notast við tilfinningadúkkur, bangsa eða hafa bangsann Blæ við höndina og skoða eða ræða um það hvernig tilfinningar gleði og leiði birtast. Margir leikskólar búa svo vel að eiga hnött með ljósi sem hægt er að nota til þess að skoða allan heiminn, allar þjóðirnar eða heimskort.

Ein hugmynd er að bregða sér í búning, setja sig í líki ofurhetju, draugs, konungs, o.s.frv.

Hreyfing og leikur

Helgileikur - leiksýning

Setja upp helgileik. Bjóða foreldrum, systkinum, ömmu og afa á leiksýninguna. Leika helgileikinn fyrir önnur börn á leikskólanum. Spila undir sönginn á hljóðfæri.

Búningaleikur - leikstofa

Spyrja börnin að því hvernig væri hægt að leika textann sem við vorum að skoða. Hafa allan efniviðinn til reiðu fyrir þau og meira til. Fylgjast með, hlusta og heyra hvernig þau vinna úr textanum og þeim upplýsingum sem þau hafa fengið í hendurnar.

Samþætting

Bækur

  • Adams, G. (1996). Fyrstu jólin. Kristján Valur Ingólfsson íslenskaði. Mál og menning.
  • Jól í Betlehem -- myndir og tölur. Skemmtilegu smábarnabækurnar.
  • Skeie, E. (1996). Barnið í Betlehem. Karl Sigurbjörnsson íslenskaði. Skálholtsútgáfan.

Tónlist

Syngja lagið og nota hljóðfæri til undirspils, börnin leika á hljóðfæri.

Litli trommuleikarinn sungið: https://www.youtube.com/watch?v=nZis6CAgZkE og texti: https://www.guitarparty.com/songs/litli-trommuleikarinn/?lang=is

Annað

Börnin segja frá eigin hefðum í tengslum við jólin.

Foreldrar barna af erlendum uppruna koma og segja frá jólahefðum í heimalandinu.

Síðast breytt
Síða stofnuð