Kónguló með átta fætur

Texti

Það var eitt sinn kónguló
sem hafði átta fætur
því þurfti hún að fara
snemma á átta fætur.
Fara í skóna,
reima skóna
á átta fætur.
Hún taldi:
  einn, tveir, þrír, fjórir,
  fimm, sex, sjö,
  átta fætur.
Trallalla, mhumhumm
Tralllalla, mhmhmhm
Trallalla, mhmhm

Höfundur óþekktur

Hægt er að hlusta á laglínuna hér á YouTube (hefst í kringum 2 mín.).

Sagan

Krissa kónguló var svolítil kuldaskræfa. Henni var alltaf kalt á tánum og fannst mjög óþægilegt að vera berfætt. Þess vegna ákvað hún að kaupa sér skó. En þar sem hún var með átta fætur (fjóra hægri fætur og fjóra vinstri fætur) þá var auðvitað ekki nóg að kaupa sér bara eitt skópar. Hvað þurfti hún eiginlega að kaupa mörg skópör?

(Eitt skópar eru tveir skór – tvö skópör = fjórir skór – þrjú skópör = sex skór – fjögur skópör = átta skór.)

Krissa keypti sér fjögur skópör og henni fannst mjög gaman að fara í skóna. En nú var hún í vanda. Þetta voru nefnilega allt strigaskór með reimum og hún hafði ekki hugmynd um hvernig maður reimar skó. Hvernig gerir maður það eiginlega?

Fyrst æfði hún sig í að binda hnút. Þegar hún kunni það fór hún að æfa sig í að gera slaufu. Það var miklu erfiðara en æfingin gerir meistarann þannig að loks var hún Krissa búin að ná tökum á þessu.

En meira að segja þegar maður kann að binda slaufu tekur það svolítið langan tíma að reima átta skó svo að Krissa þurfti að fara snemma á fætur, um leið og vekjaraklukkan hringdi – og fara í skóna – og reima skóna – á átta fætur!

En suma morgna var Krissa svolítið þreytt og óheppin og komst að því að hún var búin að fara í krummafót á öllum fótunum. Þá var ekki annað að gera en að fara aftur úr öllum skónum og byrja upp á nýtt!

Orðaforði og hugtök

  • fætur (einn fótur, tveir fætur)
  • fara á fætur
  • reima skó – skóreimar
  • binda hnút / binda slaufu
  • hægri / vinstri
  • vekjaraklukka
  • kuldaskræfa
  • krummafótur

Myndrænt/sjónrænt

Í þessu PDF-skjali er stór mynd af kónguló og fjögur skópör sem hægt er að klippa út og plasta svo að hægt sé að koma þeim fyrir á fótunum á kóngulónni þegar lagið er sungið.

Auk þess er í skjalinu síða með tölunum upp að átta.

Á myndinni efst á síðunni sést líka hugmynd þar sem teiknaður er skór á pappaspjald og síðan sett band ofan á skóinn svo að börnin geti æft sig í að binda slaufu.

Hreyfing og leikur

Kóngulóarleikur (Samvinnuleikur):

Fjögur börn í hóp krækja höndum saman í hring, með bökin inn í hringinn. Þau eru þá með átta fætur eins og könguló og þurfa að ganga eins og kónguló. Hægt að vera með fjölmenningarlega tónlist til að hreyfa sig eftir eða hljóðfæri, takt eða hvað sem kennaranum kemur í hug. Markmiðið að komast frá stað A til B með því að samhæfa hreyfingar og vinna saman.

Heimild: Reykjavíkaborg, Skóla- og frístundasvið

Stór kóngulóarvefur:

Notið garn til að búa til risastóran „kóngulóarvef“ í trjáþyrpingu eða álíka. Börnin leika kóngulær og fara um vefinn. Sum geta e.t.v. leikið flugur sem festast í honum og eiga á hættu að vera étnar.

Kóngulóarvefur úr límbandi:

Búið til „kóngulóarvef“ inni í húlahopphring með því að strekkja nokkur (t.d. 4) stykki af breiðu og sterku límbandi þvert yfir hann í kross. Hengið gjörðina síðan upp þannig að límhlíðin snúi að börnunum. Börnin „veiða nú flugur“ með því að kasta mjúkum og léttum hnoðboltum (pompoms) að gjörðinni og reyna að fá þá til að festast á límbandið.

Samþætting

Slaufur

Æfa sig í að reima / binda hnút / binda slaufu. Ýmsar aðferðir eru til, t.d. „kanínueyrnaaðferðin“ (bunny ear method).

Bók: Einar Áskell: Bittu Slaufur, Einar Áskell! eftir Gunnillu Bergström.

Tónlist

Ýmis lög fjalla um að klæða sig og hvað þarf að gera í því samhengi. Eitt er Þegar barnið í föt sín fer og annað Úr og í (Hneppa hnöppum) með Siggu Beinteins.

Náttúrufræði

Gaman er að kynna sér kóngulær. Á Vísindavefnum má finna ýmsan fróðleik um þær, sem börnin eru líkleg til að hafa áhuga á, til dæmis

Myndlist

Hægt er að festa kóngulóarvef á dökkt karton, annaðvort með hárlakki eða spreykönnu með vatni. Til að gera vefinn greinilegri er hægt að lita hann hvítan með því að dreifa smá hveiti á kartonið. Nánar hér (á dönsku).

Síðast breytt
Síða stofnuð