Bílamerkjalagið

Stuttu fyrir sumarfrí kom upp áhugi fyrir bílamerkjum og einn strákur í elstu barna hópi spurði mig hvort við gætum ekki búið til bílalag. "Auðvitað" svaraði ég. "Ég skal sækja blað, og þú segir mér hvað ég á að skrifa". Þannig varð til þetta bráðskemmtilega lag sem ég held gæti nú auðveldlega orðið vinsælt víðar um landið. Í framhaldinu fórum við að dunda okkur við að smiða bíla og að fara í bílamerkja-leiðangur um hverfið. Ungur starfsmaður á deildinni sagðist eiga Lamborghini (óskhyggja) og þannig kviknaði sérstakur áhugi á því bílamerki.

Bílamerkja-lagið

Bílar eru’ að keyra alla leið.
Bílar eru’ að keyra alla leið.
Bílar eru’ að keyra alla leið.
Og svo stoppa þeir í umferð.

Toyota, Landrover, Suzuki og Tesla.
Peugeot, Benz og Alfa Romeo.
Mazda og Kia, Nissan og Audi.
Og fleiri bílar enn! - Það eru:

Volkswagen, Volvo, Mitsubishi og Skoda.
BMW, Subaru, Lexus og Opel.
Renault, Hyundai, Ford og Honda.
Og líka Lamborghini.

Laglína: Skip to my lou my darling
Texti: 6 ára strákur

Hér er hægt að sækja lagið sem pdf

Þegar ég var að skrifa niður nöfnin á bílamerkjunum sem strákurinn nefndi fyrir lagið sitt vildi hann fá mig til að teikna merkin í stað þess að skrifa. Snilldarhugmyndin hans var nefnilega að við áttum að „lesa“ myndirnar til að syngja lagið. Þetta virkaði ljómandi vel og við fórum að syngja það við laglínuna í "Skip to my lou". Það kom auðvitað fljótt í ljós að það væri alveg hægt að bæta við erindi með enn fleiri bílamerkjum, en við látum það standa opið fyrir börn á ykkar leikskóla að glíma við það verkefni ef þau skyldu hafa áhuga.

Myndskeið

Bílamerkja-leiðangur

Þar var gaman að fara í bílamerkja-leiðangur í hverfinu í kringum leikskólann. Við tókum blöðin/lagið með okkur til að merkja inn hvaða bílamerki við fundum á leiðinni og athuga hvaða bílar væru algengastir (sem reyndist vera Toyota). Við fundum hvergi Lamboghini en fengum óvænt boð um að skoða svaka flotta Mustang og Porsche bíla hjá fólki sem hafði greinilega mikinn áhuga á sportbílum. Það var geggjað!

Bílasmíði

Síðustu vikuna fyrir sumarfrí fengu nokkrir krakkar að smíða bíla hjá mér. Þetta voru rólegir dagar í leikskólanum og mörg börn þegar farin í frí og var það yndislegt að hafa tíma fyrir svoleiðis gæluverkefni. Stelpan á myndinni hér fyrir neðan smíðaði bíl fjölskyldunnar sinnar. Þetta var rauður Mitsubishi og hún brosti út að eyrum þegar hún fór heim og settist inn í bílinn með sinn eigin bíl í fanginu.

Síðast breytt
Síða stofnuð