Þetta fallega ljóð og dramatíska og kraftmikla lag tjá vel saman þá yfirþyrmandi og stórbrotnu tilfinningu þegar eldgos brýst fram. Með aukinni eldvirkni á Reykjanesskaga er það eitthvað sem leikskólabörn hafa upplifað oftar en einu sinni og því gott að vinna úr því í leikskólanum. Þótt textinn sé á köflum torskilinn, þá er það frábær áskorun fyrir börnin að læra hann, og hreyfingarnar milli erinda gera að verkum að allir geta notið lagsins. Á efra myndskeiðinu syngja elstu börnin lagið og á því neðra sjást ýmsar eldgosahugmyndir, einkum með yngri börnum.
Eldur
Eldurinn logar
langt niðri í jörðu
leitar að opinni slóð.
Æðir um ganga,
grefur sér leiðir,
glóandi, ólgandi blóð.
Spýtist úr gígum
með geigvænu öskri,
grásvörtum bólstrum af reyk.
Leiftrandi steinar,
logandi hraunið,
lifandi kraftur að leik.
En handan við sortann,
háskann og mökkinn,
sem heldimmur leggst yfir ból,
dansar á himni,
dátt yfir landi,
dirfskunnar leiftrandi sól.
Lag: Tryggvi M. Baldvinsson
Texti: Sveinbjörn I. Baldvinsson
Myndskeið
Eldgosaleikur
Þegar eldgosið við Grindavík hófst að kvöldi 18. desember tók ég þessa mynd úr Kópavoginum. Þetta var gos sem Íslendingar höfðu beðið eftir lengi milli vonar og ótta og mér fannst því ekki koma annað til greina en að takast á við það með börnunum í leikskólanum daginn eftir en þá var ég að fara að vinna með yngstu börnunum.
Ég leitaði að hugmyndum á netinu og rakst á leikinn "Volcano Ball" þar sem sum barnanna eru inni í "eldfjalli" og kasta boltum út sem tákna hraunkúlur, en hin börnin reyna að kasta þeim til baka. Það vildi svo til að við vorum með stóran pappakassa í leikskólanum sem ég gat notað fyrir leikinn, og eins og sést á myndskeiðinu skreyttum við hann með klessu- og vatnslitum til að fá hann til að líkjast eldfjalli meira.
Eftir að ég hafði leikið leikinn með boltum með einum hópi ákvað ég að breyta honum aðeins og nota slæður með næsta hópi. Það virkaði betur og hafði líka sterkari sjónræna tengingu við eldgosið þar sem slæðurnar líktust meira kviku sem spýttist út um gosopið.
Myndskeið
Ég varpaði myndskeiði með Eldi upp á tjald og við börnin gerðum hreyfingarnar með. Af því að ég tengdi símann minn við skjávarpann þá kom upp skemmtileg "óendanleg speglun" þegar ég byrjaði að taka upp og börnin léku sér að því að kasta slæðum og gera fleira til að sjá hvernig það birtist á endurtekinn hátt á tjaldinu.
Um lagið
Lagið "Eldur" er eitt fjögurra laga sem Tryggvi M. Baldvinsson samdi við ljóð bróður síns, Sveinbjörns I. Baldvinssonar, Þúsaldarljóð. Lögin og ljóðin voru frumflutt á Arnarhóli af tvö þúsund reykvískum leikskólabörnum í maí árið 2000. "Eldur" var aftur fluttur í Hörpu af reykvískum leikskólabörnum á Barnamenningarhátið í apríl 2015.
Þúsaldarljóð eru til í heild á Spotify og eru lögin á plötunni öll í tveimur útgáfum, með og án söngs.
Þess má jafnframt geta að þungarokkssveitin Skálmöld hefur gert útgáfu af Eldi sem finna má á Spotify.