Þetta lag höfum við notað bæði inni í samverustund og úti í feluleik. Sem sjá má á textanum (og myndunum) er það hjá okkur elgur sem hafi falið sig, en auðvitað er hægt að syngja um hvaða dýr sem er. Það gerði líka feluleikinn enn skemmtilegri að nota elgshúfuna með hornunum :o)
Elgur í feluleik
Elgur er í feluleik
ég finn hann bara ei.
Ég hef leitað alls staðar
ég nenni ekki meir'!
Gái upp á - gái undir!
Hvar get ég hann fundið?
Segðu: "Hó! Hó! Hó!"
því ég vil finna þig!
Segðu: "Hó! Hó! Hó!"
því ég vil finna þig!
Lag: Lotte Kærså: "Hvem har set min bamse?"
Þýð.: Birte Harksen
Innileikur
Innileikurinn er þannig að allir sitja í hring nema einn sem liggur á grúfu í miðjunni. Börnin sem sitja í hring halda um langt teygjuband en á því er elgurinn (eða annað dýr). Þau syngja fyrsta hlutann af laginu og láta elginn ganga áfram á milli sín með því að draga í teygjuna. Þegar lagið stoppar felur viðkomandi barn hann. Sá sem er í miðjunni fær fyrst eina ágiskun, en ef hann finnur ekki elginn syngjum við síðara erindið á meðan hann grúfir aftur, og barnið sem er með elginn segir svo "hó, hó". Síðan fær sá í miðjunni að giska aftur.
Myndskeið
Á myndskeiðinu hér að neðan er hægt að heyra hvernig lagið er sungið auk þess að sjá hvernig við höfum notað það í leik bæði úti og inni. Ég var aðeins að leika mér að því að gera stiklu þegar ég var að klippa saman :o))