Það var yndislegt haustveður í dag og börnin á leikskólanum nutu þess að vera úti. Ég var með söngstund í Stubbaseli og við tókum upp þetta fallega haustlag. Börnin fengu að reyna að blása laufum af trénu sem ég hafði verið að föndra, en hugmyndina sá ég á netinu í gær og leist vel á. Þetta er frábær æfing fyrir kinnavöðvana en þar fyrir utan er það mjög skemmtilegt og gaf alveg hárétta stemmningu í söngstundinni okkar :)
Haustvísa
Am Dm E Am
Hvert er horfið laufið sem var grænt í gær?
Am Dm E Am
Þótt ég um það spyrji verð ég engu nær.
Am Dm E Am
Blöðin grænu hafa visnað, orðin gul og rauð.
Am Dm E7 Am
Ef ég horfi mikið lengur verður hríslan auð.
Þjóðlag frá Belgíu
Texti: Herdís Egilsdóttir
Söngstund í Stubbaseli
Fleiri erindi
Nú er ís á vatni sem var autt í gær.
Yfir landið hélugráum ljóma slær.
Ég brýt heilann um það-segðu mér hvað heldur þú?
Kemur haustið fyrst á morgun? Er það komið nú?
Nú er grettin jörðin eins og gamalt skar.
Sjást nú gráar hærur þar sem grasið var.
Yfir fyrrum gróna bala liggja frosin spor.
Ég verð kuldatíð að þola þar til kemur vor.
Myndir úr samverustund á Aðalþingi
Áður en við sungum lagið fengu börnin hvert sitt laufblað til að æfa sig í að blása.