Það er gaman að kynna Heilsuleikskólann Heiðarsel í Keflavík og hinn metnaðarfulla kennara elstu barnanna, Jóhönnu Helgadóttur. Börnin voru á dögunum með formlega útskrift þar sem þau sungu þetta velþekkta lag um lífið í sveitinni fyrir meira en 150 árum. Börnin unnu líka að fallegu listaverki fyrir BAUN (Listahátið barnanna) í Duus safnahúsi í maí 2024 sem sést á myndinni hér að neðan.
Í Hlíðarendakoti
Fyrr var oft í koti kátt,
krakkar léku saman,
þar var löngum hlegið hátt,
hent að mörgu gaman.
Úti' um stéttar urðu þar
einatt skrítnar sögur,
þegar saman safnast var
sumarkvöldin fögur.
Eins við brugðum okkur þá
oft á milli bæja
til að kankast eitthvað á
eða til að hlæja.
Margt eitt kvöld og margan dag
máttum við í næði
æfa saman eitthvert lag
eða syngja kvæði.
Bænum mínum heima hjá
Hlíðar brekkum undir
er svo margt að minnast á,
margar glaðar stundir.
Því vill hvarfla hugurinn,
heillavinir góðir,
heim í gamla hópinn minn,
heim á fornar slóðir.
Lag: Friðrik Bjarnason (1880–1962)
Texti: Þorsteinn Erlingsson (1858–1914)
Þegar börnin byrjuðu að vinna að þessu sem útskriftarverkefni varð til samstarf við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar um undirspil á laginu sem nemandi í píanóleik, Elva María Elvarsdóttir, ákvað að taka að sér þar sem hún hafði áður æft lagið og spilað með Bjöllukór tónlistarskólans (yngri hóp) og fannst áhugavert að geta líka lært það á píanó.
Í framhaldi langaði Jóhönnu og börnin líka að taka upp myndskeið af laginu til að birta hér á vefnum. Afraksturinn sést hér að neðan en eins og sjá má af fínu húfunum er myndskeiðið tekið upp í sjálfri útskriftinni.
Myndskeið
Myndir til stuðnings
Teknar voru saman myndir til að sýna hvað gerist í textanum. Þær hjálpa til þegar farið er gegnum textann og hann útskýrður fyrir börnunum en stuðlar líka að því að þau fái persónulega tengingu við hann, auk þess sem þau auðvitað skilja innihaldið betur og fá stuðning við að muna textann þegar lagið er sungið. Myndirnar eru hér í PDF-skjali og er öllum velkomið að nota þær.
Sagan um lagið
Jóhanna samdi litla sögu svo að börnin skildu betur hvernig lagið varð til og lífið var í gamla daga. Sú nálgun að búa til sögu er mjög áhrifarík til að börnin meðtaki betur innihaldið í textanum og myndi persónulega tengingu við lagið.
Einu sinni var lítill strákur sem átti enga mömmu og engan pabba. En hann var svo heppinn að eiga ömmu og afa. Amma hans hét Helga og afi hans hét Þorsteinn. Þau ákváðu að taka litla strákinn til sín í fóstur og skírðu hann í höfuðið á afa sínum Þorsteini. Þorsteinn litli ólst upp við það að amma Helga og afi Þorsteinn urðu einfaldlega mamma Helga og pabbi Þorsteinn. Þau bjuggu öll saman á sveitabæ sem hét Hlíðarendakot. Hlíðarendakot var stór bóndabær og þar bjó fullt af fólki sem hjálpaði Helgu og Þorsteini að hugsa vel um bóndabæinn og dýrin sem bjuggu þar.
Í Hlíðarendakoti var alltaf gaman og mikil gleði. Þar voru líka fleiri börn sem Þorsteinn gat leikið sér við. Þau léku sér mest úti, vegna þess að í gamla daga þegar Þorsteinn var lítill strákur, þá léku krakkar sér mjög mikið úti allan liðlangan daginn. Krakkarnir léku í alls konar leikjum og á kvöldin þá söfnuðust allir saman, bæði fullorðnir og börn, borðuðu saman og sögðu sögur af því hvernig dagurinn þeirra var.
Í sveitinni voru fleiri bóndabæir og oft þurfti fullorðna fólkið og krakkarnir að fara á milli bæja; stundum til þess að fá eitthvað lánað, stundum til þess að sækja eitthvað, stundum fóru þau með mat eða dýr á milli bæja, stundum fóru þau í veislu og stundum fór bara Þorsteinn að leika við aðra krakka á næstu bæjum. Þorsteini fannst mjög gaman að fara í heimsókn á aðra bæi eða fá gesti til sín vegna þess að þá fóru krakkarnir oft að grínast (kankast) eitthvað í fullorðna fólkinu og stríða þeim eða æfa sig í að syngja saman eins og kór. Krakkarnir æfðu sig í að syngja saman lög og héldu svo sýningar og tónleika fyrir fullorðna fólkið. Allan daginn og allt kvöldið voru krakkarnir að gera eitthvað skemmtilegt. En stundum var líka gott að vera bara einn með sjálfum sér og slaka á.
Þegar Þorsteinn var orðinn fullorðinn maður þá gerðist hann skáld, það er höfundur sem yrkir ljóð, oft kallað ljóðskáld. Eitt af vinsælustu ljóðunum hans er einmitt lagið Í Hlíðarendakoti. Hann skrifaði textann og seinna samdi maður sem heitir Friðrik Bjarnason lag við ljóðið svo að fullorðnir og börn gætu sungið ljóðið hans Þorsteins.
Þorsteinn samdi ljóðið til þess að minnast gamla bóndabæjarins síns, sem var í hlíð undir brekku. Hann átti svo margar góðar stundir þar sem barn sem gerðu hann glaðan. Honum varð oft hugsað til gamla bæjarins, til allra barnanna, vinanna sem hann átti þar og lék sér við. Helst vildi hann geta farið þangað aftur, heim í gamla hópinn sinn og heim á fornar slóðir.
Heilsuleikskólinn Heiðarsel
Leikskólinn Heiðarsel er fjögurra deilda leikskóli, staðsettur í Reykjanesbæ. Leikskólinn tók til starfa þann 8. október árið 1990. Þar geta dvalið allt að 94 börn á aldrinum tveggja til sex ára.
Þann 8. október árið 2004 tók leikskólinn að starfa eftir Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur og er markmið skólans að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á leik, hreyfingu, næringu og listsköpun í leik og starfi. Aðrar áherslur í starfi leikskólans eru læsi, stærðfræði og tónlist.
Meira um vinnuna með lagið
Vinnan með lagið í Heiðarseli tengist þróunarverkefninu Leikgleði gegnum sögur og söng sem allir leikskólar í Reykjanesbæ tóku þátt í skólaárið 2023-24. Í sambandi við það unnu leikskólarnir m.a. markvisst með söngtexta í þekktum barnalögum með málörvun að leiðarljósi. Á síðunni Gömlu góðu barnalögin eru mörg þessara laga tekin saman, þar á meðal Í Hlíðarendakoti. Eru allir sem vilja vinna með lagið hvattir til að kynna sér þetta.