Ævintýri, leikur og tónlist hafa öll sínu hlutverki að gegna í þessu þemaferli um Indland. Sagan fjallar um Isha, lítinn, indverskan strák sem hefur það hlutverk að sitja uppi í tré og vara þorpsbúa við þegar grimma tígrisdýrið nálgast.
Róleg indversk tónlist er spiluð í bakgrunni meðan sögð er þjóðsagan af Isha og tígrisdýrinu (Sjá hér fyrir neðan). Mikilvægt er að flytja söguna á eins lifandi hátt og hægt er. Börnin þurfa að sjá atburðarásina og hið framandi umhverfi vel fyrir sér. Því næst læra börnin lagið sem Isha syngur í sögunni. Að lokum er leikinn leikur, sem um leið er eins konar leikrit sem endursegir söguna í stílfærðri útgáfu. (Sjá neðst á síðunni).
Söngur Ishas
Ég sit í trénu allan daginn
hér á Indlandi.
Ég er að bíða eftir
tígrisdýrinu.
Og ef það kemur slæ ég fast og leng'
á trommuna.
Þá flýta allir sér
að fela sig.
Ég bý til slöngu til að hræða
tígrisdýrið nú.
Þannig ætla ég að reka það
á brott.
Lag: We Dance With Love, í Let's Make Music!, bls. 32.
Söngtexti: Baldur Kristinsson.
Myndskeið
Þetta myndskeið var tekið upp í Heilsulekskólanum Urðarhóli, vor 2010. Kennarar eru Birte, Imma og Gerður.
Ævintýrið um Isha og tígrisdýrið
Á Indlandi bjó einu sinni stórt og illgjarnt tígrisdýr, sem naut þess að hrella fólk. Á hverjum degi fór það í þorp eitt til að hræða þorpsbúa og stela geitum þeirra og kúm.
Rétt utan við þorpið var hátt tré. Þar sat lítill drengur sem hét Isha og gætti þorpsins. Í hvert sinn sem tígrisdýrið kom sló hann á trommu og allir í þorpinu, bæði karlar og konur, strákar og stelpur, hundar og kettir, geitur og hænur, hlupu inn í húsin og lokuðu sig inni þar til Isha sló aftur á trommuna til að gefa til kynna að tígrisdýrið væri farið.
Isha varð brátt þreyttur á þessu hlutverki sínu. Hann langaði að leika sér með hinum börnunum og fara að baða sig í fljótinu í sumarhitanum. Engum hafði nokkru sinni tekist að ná tígrisdýrinu eða hrekja það á brott, en Isha ákvað samt að reyna það.
Um kvöldið þegar hann var kominn heim byrjaði Isha að búa til hræðilega slöngu. Þetta tók hann mörg kvöld.
Loksins var slangan tilbúin, og hann dró hana með erfiðismunum með sér upp í tréð. Isha beið uppi í trénu eins og venjulega, en í þetta sinn hélt hann í afturhlutann á slöngunnni. Ekki leið á löngu þar til tígrisdýrið átti leið um.
“Gættu þín, tígrisdýr!” kallaði drengurinn og lét slönguna sveiflast fyrir framan nefið á því. Tígrisdýrið varð mjög skelkað þegar það skyndilega sá gapandi ginið á slöngunni með beittum eiturtönnum og köld og glitrandi augu hennar. Það varð svo hrætt að það rak upp öskur og flúði eins og fætur toguðu. Það hljóp og hljóp, og er kannski á hlaupum enn þann dag í dag.
Upp frá þessu lét tígrisdýrið aldrei sjá sig aftur í þorpinu, svo að Isha gat leikið sér með hinum börnunum, - alveg eins og hann hafði óskað sér!
Þýtt eftir: "A fright for tiger"
Þýðandi: Baldur Kristinsson.
Tónlist (undirleikur við frásögnina): “Guru Bandana”, The Very Best of India, diskur 2.
Leikur/Leikrit
Eitt barnanna er gert að tígrisdýri með tilheyrandi grímu og e.t.v. Tígrisdýrahljóðbretti eða annan hljóðgjafa, annað leikur Isha, fær trommu og sest upp í tré. Hið fjöruga lag "Mundian To Bak Ke" (The Very Best of India, Volume 1) er leikið og börnin dansa meðan tígrisdýrið laumast hægt og rólega nær. Þegar það kemur á fyrirframákveðinn stað (sem er merktur með einhverjum hætti) byrjar Isha að slá á trommuna og öll börnin flýta sér heim í húsin sín og grúfa þangað til að tígrisdýrið er farið. Þetta er endurtekið 2-3 sinnum.
Því næst mynda börnin slöngu saman, e.t.v. með því að halda á langri leikfangaslöngu eins og á myndinni. Slangan ræðst á tígrisdýrið næst þegar það nálgast.
Þetta má útfæra sem Slöngudans (sjá myndskeiðið á þeirri síðu).
Í lokin er hægt að leika þrautakóng með slöngunni: Börnin skiptast á að vera fremst og ákveða hvernig slangan á að hreyfa sig. Þeir sem aftar eru eiga að líkja eftir hreyfingum þess sem er fyrir framan.
Einnig er mögulegt að tengja hreyfileikinn (LINKTO: page not found for "slanga-i-grasinu") við þetta.