Litalagið þekkja allir. Það er eflaust það lag sem er einna mest sungið í íslenskum leikskólum. Oft er það sungið með táknum fyrir litina og þetta er auðvitað eitthvað sem hjálpar yngstu börnunum að muna lagið. En þótt þau kunni lagið er ekki endilega víst að þau hafi alveg lært litina. Þess vegna fékk ég þá hugmynd að gera lagið meira áþreifanlegt fyrir börnin með því að þau spili á litaðar kassatrommur og skipti yfir á næstu trommu eftir því hvaða litur er sunginn.
Litalagið
C F C
Gulur, rauður, grænn og blár
G7 C G7 C
svartur, hvítur, fjólublár
C G7 C G7
brúnn, bleikur, banani,
C G7 C G7
appelsína talandi.
C F C
Gulur, rauður, grænn og blár
G7 C G7 C
svartur, hvítur, fjólublár
Sumir leikskólar eru farnir að bæta gráa litnum við með því að syngja "fjólublár og grár".
Myndskeið
Á þessu myndskeiði, sem var tekið upp á Aðalþingi vorið 2023, sést litalagið í tveimur miserfiðum útgáfum. Fyrst sjást börn á yngstu deild þar sem við höfum raðað kössunum upp í sömu röð og lagið segir, og síðan hjá aðeins eldri börnum sjáum við þegar búið er að raða kössunum eftir stærð (sem ruglar litaröðina). Þetta er að sjálfsögðu erfiðara, en líka gaman fyrir börnin að glíma við. Kennarinn fær þar mjög skýra vísbendingu um hvort barnið er búið að læra litina.
Annað skemmtilegt myndskeið tengt þessu lagi er að finna á síðunni Gulur, rauður, grænn og blár. Þar sýna útskriftarbörn á Urðarhóli útskriftaratriði þar sem þau nota hringiðuflöskur með lituðu vatni.
Bleikur banani?
Litalagið var eitt af fyrstu leikskólalögunum sem ég lærði eftir að ég flutti til Íslands. Þá heyrði ég alltaf "bleikur banani" (án kommu á milli) og fannst það fyndið. Þess vegna er ég alltaf með bleikan banana (eða mynd af honum) við höndina þegar lagið er sungið.