Ég fékk hugmyndina að lóuspilinu þegar við vorum með lóuþema í vor. Það var gert fyrir samverustund (eins og sjá má á myndskeiðinu neðst á síðunni) en það er auðvitað líka hægt að nota það eins og hefðbundið spil (en þá má sleppa söngnum). Mér fannst spilið vera góð leið til að sía inn smá fræðslu um lóuna. T.d. hvað hún borðar og hverjir óvinir hennar eru, og ekki síst að hún verpir fjórum eggjum í hreiður á jörðinni, hvernig þau eru á litinn, og hvernig ungarnir líta út.
Ég notaði spilaplötu úr gömlu spili og límdi á það myndir sem ég hefði fundið á netinu, prentað út og plastað. Lóan sem er notuð fyrir spilakarl er gerð úr leir, hreiðrið er lítil karfa undan hvítlauk, sem ég hvolfdi og fóðraði með mosa. Eggin áttum við í leikskólanum en þau fengu smá grænan blæ. Lóuungarnir eru páskaungar sem voru málaðir dröfnóttir.
Spilareglur
Þegar spilið er notað í samverustund skiptast börnin á að kasta tengingi og flytja lóuna. Hún fer ávallt réttsælis.
Eftirfarandi gerist þegar maður lendir á hinum mismunandi reitum:
Lóan: Við syngjum „Lóan er komin að kveða burt snjóinn“. (Annar möguleiki: allir segja í kór: "Dirrin-díí Dirrin-díí").
Spóinn: Við syngjum „Sá ég spóa“.
Sólin: Við syngjum: „Sól, sól skín á mig“
Snjókorn : Við syngjum: „Frost er úti, fuglinn minn“
Matur (skordýr, ánamaðkar, bláber): Við segjum: „Bíb, bíb, bíb“.
Óvinir (svörtu myndirnar): Þá er tekið egg úr hreiðrinu. Upplagt er að syngja: "Krummi krunkar úti" ef lent er á hrafni.
Egg: Þá má leggja egg til baka í hreiðrið, ef óvinur hefur rænt því áður í spilinu. Við syngjum líka „Ég verpti fjórum eggjum“.
Ungi: Þá klekst eitt eggið út og verður að unga (og ekki hægt að ræna því lengur úr hreiðrinu).
Spilinu lýkur þegar öll eggin hafa klakist út eða þegar samverustundin er búin.
Hugmynd og útfærsla: Birte Harksen
Ég verpti fjórum eggjum
Ég verpti fjórum eggjum
núna í vor
við hliðina á læknum
í Kópavog
Kópavog, Kópavog
Við hliðina á læknum í Kópavog
Lagið er sungið við laglínuna: "Vertu til er vorið kallar á þig".
Textann samdi Ingibjörg Ásdís Sveinsdóttir (Imma).