Sofandi kanínur

Þetta er svo einfalt og skemmtilegt og yngstu börnin ljóma alltaf af gleði að leika kanínur. Þegar ég byrja að syngja leggjast börnin strax á grúfu og leika sofandi kanínur sem kúra saman á gólfinu. Ég strýk þeim um bakið og syng lagið á meðan. Þegar það kemur að því að vekja kanínurnar klappa ég höndum og stappa í gólfið. Kanínurnar hoppa glaðar út um allt þangað til að ég segi stopp og leikurinn byrjar upp á nýtt.

Sum börnin langar ekki að leika kanínur og þá býð ég þeim að hjálpa mér að strjúka á þeim bakið og vekja þær með mér. Stundum vilja börnin líka bara horfa á en oft kemur fyrir að þau hoppi inn í leikinn síðar.

Ég hef ekki séð lýsingu á þessum leik í bók en lærði hann af starfssystur minni. Ég nota hann eins og ég man eftir honum en það geta verið einhver frávik fra upphaflegri útgáfu. Ég hef reyndar séð svipað lag á ensku (Sleeping Bunnies) en þar er laglínan öðruvísi.

Sofandi kanínur

Sjáið þið litlu kanínurnar,
þær eru steinsofandi.
Shhhh... ekki vekja þær
með allt of miklum hávaða!

Vaknið þíð nú, kanínur!
Vaknið þíð nú, kanínur!

Hoppið þíð kanínur! Hopp! Hopp! Hopp!
Hoppið þíð kanínur! Hopp! Hopp! Hopp!
Hoppið þíð kanínur! Hopp! Hopp! Hopp!
Hoppið og... STOPPIÐ!

Höfundur óþekktur

Myndskeið

Þegar börnin þekkja leikinn vel byrja þau að leggja til að vera líka önnur dýr. Við höfum prófað að vera kettir, slöngur, krókódílar, kóngulær og fleira.

Sleeping Bunnies

Til samanburðar er hér myndskeið af YouTube með enska laginu og textanum. Það eru reyndar fleiri útgáfur á ensku bæði hvað varðar laglínu og texta.

Síðast breytt
Síða stofnuð