Tromman hans Osebos
Börn af tveimur deildum unnu saman að því að mála þessa fallegu risatrommu sem hefur miklu hlutverki að gegna í einni af uppáhaldsbókunum okkar í vetur. Sagan fjallar um montna hlébarðann Osebo sem vildi ekki leyfa neinum að prófa trommuna sína, en sem að lokum var plataður inn í hana af skjaldbökunni Achicheri. Þau Achicheri og Osebo urðu svo sannarlega leikvinir okkar allra. Við lékum söguna aftur og aftur og söngluðum rytmastefin þeirra í allan vetur.
Tromman verður til
Það eru tvö myndskeið hér á síðunni. Fyrra myndskeiðið sýnir þegar börnin á tveimur elstu deildunum unnu að því að skreyta tommuna hans Osebos. Hitt myndskeiðið sýnir fjögurra ára börnin gera grímur fyrir hin dýrin í bókinni: skjaldbökuna, fílinn, apann, slönguna og himnaguðinn.
Trommu-rytmar
Öll dýrin í bókinni fengu rytmastef sem var sönglað og spilað á hljóðfæri. Vinsælust voru stef hlébarðans: "Os-e-bo, Os-e-bo, ÉG er Os-e-bo!" og stef skjaldbökunnar: "A-chi-che-ri, A-chi-che-ri, A-chi-che-ri, A-chi-che-ri". Þessi stef fóru brátt að heyrast út um allt í leikskólanum og eflaust heima líka.
Sonur minn Bjarki sem spilaði á slagverk í mörg ár var svo indæll að gera nóturnar fyrir mig. Hann gerði lika hljóðdæmið sem má heyra hér Þar heyrast öll rytmastef dýranna bæði sitt í hverju lagi og síðan öll stefin saman í lokin.
Börnin gera grímur
Börnin á næstelstu deild vildu líka búa til grímur fyrir skjaldbökuna, fílinn, apann, slönguna og himnaguðinn. Þegar grímurnar voru tilbúnar lékum við söguna aftur. Að þessu sinni tengdum við þar að auki hljóðfærin ennþá meira inn í leikinn og hvert dýr fékk að vera með sitt hljóðfæri.
Söguþráður
Bókin The Leopard's drum eftir Jessica Souhami byggir á þjóðsögu frá Vestur-Afríku og fjallar um hlébarðann Osebo sem er hávær og montinn.
Einn daginn bjó Osebo til risastóra trommu sem heyrðist hátt í og öll dýrin í skóginum vildu eiga hana. Jafnvel himnaguðinn Nyame langaði í trommuna en Osebo harðneitaði að láta hana af hendi. Himnaguðinn reiddist og tilkynnti að hvert það dýr sem færði honum trommuna fengi mikil verðlaun.
Slangan Onini, fíllinn Esono og apinn Asroboa reyndu að ná trommunni en Osebo hrakti þau burt. Loks kom skjaldbakan Achicheri og henni tókst með kænsku að lokka Osebo inn í trommuna og færa himnaguðinum. Í verðlaun valdi Achicheri harða skel.
Ég nota bókina oft í Leik að bókum og hún varð sérstaklega vinsæl á Aðalþingi í vetur og því var tilvalið að tengjast henni ennþá meira persónulegum böndum gegnum skapandi starf. Það er alltaf dýrmætt fyrir mig að upplifa að börn á mörgum deildum deili sama hugarheim gegnum sögur, tónlist og söng, og tromman hans Osebos sá svo sannarlega til þess.
Leikur að bókum
Þegar við leikum bækur í Leik að bókum byrjum við á því að lesa bókina og teikna hlutverkin á töfluna. Síðan velja börnin sér hlutverk og leikurinn hefst. Við leikum söguna aftur og aftur og börnin skipta um hlutverk í hvert sinn. Hægt er að kynna sér Leik að bókum nánar á vefnum leikuradbokum.net.